„Ég veit nokkurn veginn hvað ég vil ekki...“

„Ég veit nokkurn veginn hvað ég vil ekki, en það er ekki eins skýrt hvað ég raunverulega vil í staðinn.“

Það er einmitt þetta sem rekur fólk oft inn á skrifstofu til mín. Fólk veit og finnur þegar eitthvað er ekki eins og það á að vera, ef eitthvað skortir eða ef það er eitthvað í starfinu eða starfsumhverfinu sem veldur okkur óþægindum eða vanlíðan. Það er einhver sársauki eða óþægindi sem ýtir okkur út í það að vilja breyta til, sækjast eftir einhverju öðru, án þess þó að við vitum endilega hvað þetta 'annað' er.

Þetta getur verið óþægileg en merkilega algeng staða. Þú ert ekki þar sem þú vilt vera, en sérð ekki enn hvert þú átt að stefna í staðinn.

Það getur verið þreytandi ástand.
Eins og að standa í þoku. Þú sérð varla fram fyrir nef þér og veist ekki hvert þú ert að fara.
Það sem áður virkaði virkar ekki lengur.
Það sem áður var gott fullnægir ekki lengur.
Það sem áður var spennandi er nú orðið þreytt.
Mögulega hefur þú líka farið að efast um eigin hæfni, dómgreind eða hugrekki.

Það að vita hvað þú vilt ekki, er þó mikilvægur byrjunarpunktur.
Það er vísbending um að eitthvað innra með þér sé að reyna að kalla á breytingu. Það þýðir að þú ert að byrja að hlusta á innsæi þitt og innri rödd, og ert tilbúin(n) að byrja að skoða hvað raunverulega skiptir máli.

Í markþjálfun færð þú aðstoð og stuðning við að við að taka næstu skref, þótt leiðin geti virst óljós í byrjun.
Við skoðum meðal annars:

✨ Hvað hefur áður veitt þér gleði og tilgang?
✨ Hvernig líður þér í mismunandi aðstæðum og hvað gefur þér orku?
✨ Hver eru þín persónulegu gildi og hvernig endurspeglast þau í lífi þínu í dag?

Smám saman fer þokunni að lyfta. Það myndast samhengi, skilningur og ný sýn. Þú ferð að þora að velta nýjum hugmyndum fyrir þér og þú byrjar að taka ákvarðanir og skref út frá eigin sannfæringu ekki ótta, ekki vana, heldur tengingu við sjálfa(n) þig.

Þannig verður óvissan ekki lengur ógn heldur tækifæri.

💬 Hefur þú verið í þessari stöðu? Hvað hjálpaði þér að komast áfram?
--
Hæ, ég heiti Lella og er markþjálfi og ráðgjafi sem hjálpar fólki á starfstengdum tímamótum að treysta á eigin styrk, láta til sín taka og blómstra í starfi. Ég brenn fyrir bættri vinnustaðamenningu og hef ástríðu fyrir því að hjálpa fólki að losa sig við loddaralíðan. Ég er alltaf til í spjall!

Previous
Previous

„Ég hef ekki orku í að breyta...“

Next
Next

„Fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að gráta.“