„Ég hef ekki orku í að breyta...“
„Ég hef ekki orku í að breyta, en ég get ekki haldið áfram svona.“
Þekkir þú tilfinninguna sem fylgir því að upplifa að þú ert við það að klessa á vegg í starfi? Þú upplifir þreytu, ringulreið, vanmátt, leiða, reiði, orkuleysi, skort á drifkrafti, óöryggi og jafnvel samviskubit yfir því að „geta ekki meira“, en ert á sama tíma fullkomlega meðvituð um að þetta er ekki sjálfbært ástand.
Stundum finnst okkur við þurfa að vera tilbúin í stóra breytingu áður en við megum byrja að hugsa hana. Eins og við þurfum að vera hress, skipulögð, skýr og drífandi áður en við tökumst á við það sem er í raun og veru að.
En það virkar ekki þannig.
Stundum er fyrsta skrefið einfaldlega að segja það upphátt: „Ég get ekki haldið áfram svona.“ Það eitt og sér er árangur og upphaf því það sýnir að þú ert að hlusta á eigið innsæi, tilfinningar, hugsanir og líkama. Það sýnir að eitthvað í þér segir að þú eigir meira og/eða betra skilið.
Í markþjálfun vinnum við með nákvæmlega þetta, að byrja smátt og skoða:
🌱 Hvað skiptir þig raunverulega máli?
🌱 Hvað þarf að breytast til að þú blómstrir?
🌱 Hvað tæmir þig?
🌱 Hvað nærir þig?
Þegar við erum örmagna þurfum við ekki „áætlun“ heldur tengingu við okkur sjálf. Við þurfum ekki að „harka af okkur“ heldur finna hvað okkur vantar og hvað drífur okkur áfram. Í því býr kraftur, ekki veikleiki.
Stundum þarf ekki meira til að hefja breytingarferli en að segja:
„Ég veit ekki alveg hvað ég þarf, en ég veit að þetta gengur ekki lengur.“
Það er upphafið að einhverju nýju.
💬 Hefur þú einhvern tíma staðið á þessum stað? Hvað hjálpaði þér að endurheimta orku og finna þína leið?
--
Hæ, ég heiti Lella og er markþjálfi og ráðgjafi sem hjálpar fólki á starfstengdum tímamótum að treysta á eigin styrk, láta til sín taka og blómstra í starfi. Ég brenn fyrir bættri vinnustaðamenningu og hef ástríðu fyrir því að hjálpa fólki að losa sig við loddaralíðan. Ég er alltaf til í spjall!