„Ég kann þetta...“

„Ég kann þetta og geri það vel, en kannski langar mig það ekki lengur.“

Þetta er ein af þeim setningum sem situr eftir lengi.
Þetta er eitthvað sem ég heyri mjög reglulega hjá konum sem hafa allt sitt líf verið duglegar, sterkar, drífandi, með skýra sýn og allt sitt á hreinu.
Þetta er oft drifkraftur í átt að starfstengdum breytingum hjá þeim sem upplifa að ástríða, tilgangur og starfsfylling séu ekki lengur til staðar í núverandi starfi.

Þessar vangaveltur koma oft upp í markþjálfunarsamtölum við fólk sem hefur mikla reynslu á sínu sviði, nýtur virðingar, eru traustir samstarfsfélagar og góðar fyrirmyndir. En innra með þeim hefur kviknað annað samtal, það sem fólk á við sig sjálft þegar enginn heyrir til:
„Er þetta í alvöru það sem mig langar að vera að gera?“

Það getur verið skrýtin tilfinning að vita að man er fær, metin og nýtur virðingar í starfi, en samt upplifa að þú sért ekki á réttum stað, að þú ættir mögulega að vera að gera eitthvað annað. Að hlutverkið, þó það henti vel á pappír, sé ekki lengur í takt við ástríðu þína, gildi, þrár og hver þú ert að verða.

Þetta er oft ekki spurning um óánægju í starfi heldur löngun til þess að vaxa, dafna og blómstra á sinn sannasta máta. Þegar við stækkum innra með okkur, þá þarf umhverfið stundum að fylgja með. Þegar hæfni þín og löngun eru ekki lengur á sömu tíðni, þá kvikna nýjar spurningar:

✨ Hvað langar mig að læra eða prófa næst?
✨ Hvaða viðfangsefni kveikja forvitni og gleði?
✨ Hvað fær hjartað mitt til að slá örar?

Markþjálfun getur hjálpað við að halda utan um þetta ferli, að skoða hvort þú sért í réttu hlutverki fyrir þig núna, ekki bara því sem þú lærðir, komst í eða komst upp með hingað til. Heldur hvort þú sért í starfi sem nærir þig, bætir og kætir.

Stundum breytist vegurinn framávið, ekki vegna þess að þú hafir ekki ráðið við hann, heldur vegna þess að þú ert tilbúin(n) til að feta nýjan veg.

💬 Hefur þú einhvern tímann staðið frammi fyrir þeirri spurningu: „Kannski langar mig eitthvað annað núna“?

--
Hæ, ég heiti Lella og er markþjálfi og ráðgjafi sem hjálpar fólki á starfstengdum tímamótum að treysta á eigin styrk, láta til sín taka og blómstra í starfi. Ég brenn fyrir bættri vinnustaðamenningu og hef ástríðu fyrir því að hjálpa fólki að losa sig við loddaralíðan. Ég er alltaf til í spjall!

Previous
Previous

Að lifa ævistarfið sitt af

Next
Next

„Ég hef ekki orku í að breyta...“