Að lifa ævistarfið sitt af
'Mig langar að lifa ævistarfið mitt af' sagði hún og dæsti, 'lifa það af, njóta þess og halda heilsu í leiðinni'.
Hún sat á móti mér og starði út í loftið þegar hún sagði þetta vegna þess að hún veit upp á sig sökina. Til mín var hún komin vegna þess að hún hékk fram af bjargbrún og var við það að falla. Heilsan var farin að gefa sig, starfsánægjan fokin út í veður og vind, orkan og sköpunargleðin sömuleiðis. Það sem eftir sat voru áhyggjur, skömm, sjálfsniðurrif og brotið hjarta.
Að þremur markþjálfunarsamtölum liðnum fann hún innra með sér þennan djúpa sannleika, kraftmiklu möntru: 'Mig langar að lifa ævistarfið mitt af'.
Hún vissi það líka innra með sér að til þess að ná þangað þurfti ýmislegt að breytast. Hennar viðhorf til vinnunnar og sjálfrar sín, skipulag starfsins og yfirsýn og umfram allt það að nú þarf hún að byrja að forgangsraða eigin heilsu, vellíðan, gleði og ánægju.
Það er ekki auðvelt að breyta gömlum venjum og viðhorfum en þegar markmiðið er skýrt, þá verður leiðin þangað líka sýnilegri. Þegar leiðin er sýnilegri er auðveldara að brjóta skrefin upp og setja niður aðgerðir sem færa þig nær markmiðinu.
--
Hæ, ég heiti Lella og er markþjálfi og ráðgjafi sem hjálpar fólki á starfstengdum tímamótum að treysta á eigin styrk, láta til sín taka og blómstra í starfi. Ég brenn fyrir bættri vinnustaðamenningu og hef ástríðu fyrir því að hjálpa fólki að losa sig við loddaralíðan. Ég er alltaf til í spjall og kaffibolla!