„Ég hélt að ég væri að leita að nýju starfi, en ég var í raun að leita að sjálfri mér.“
„Ég hélt að ég væri að leita að nýju starfi, en ég var í raun að leita að sjálfri mér.“
Þetta fékk ég að heyra í markþjálfunarsamtali um daginn og ég tengi svo sterkt við hana persónulega. Í þessu tilviki var markþjálfasambandinu að ljúka. Viðkomandi kom til mín til að fá aðstoð og stuðning í atvinnuleit. Hún fann að núverandi starf var ekki að þjóna henni lengur á þann átt sem það gerði í upphafi og hún fann að hún vildi breyta til. Hún vissi bara ekki hvað hún vildi eða hvað það var raunverulega sem ekki passaði lengur.
Við unnum markvisst að því í sex samtölum að fá skýra mynd á þetta allt saman. Þótt við höfum byrjað samstarfið á því að ræða starfsleit, þá komu fljótt í ljós dýpri þrár og vangaveltur. Það var einmitt í lok síðasta tímans okkar saman sem hún sagði þetta: „Ég hélt að ég væri að leita að nýju starfi, en ég var í raun að leita að sjálfri mér.“
Það er einmitt það sem markþjálfun gerir, hún hjálpar okkur að tengjast okkur upp á nýtt og skerpa á eigin persónulegu stefnumótun, löngunum, þrám, ótta, hugsunum, tilfinningum og viðhorfum.
Við förum oft að leita að nýju starfi þegar eitthvað innra með okkur segir að núverandi starf sé af einhverjum sökum ekki lengur nóg, það passi okkur ekki lengur, við viljum meira, við viljum annað, við viljum fá að breiða út vængina og takast á við nýjar áskoranir.
👉 „Ég þarf að komast eitthvað annað, en ég veit ekki hvert“
👉 „Ég er orðin þreytt á því að líða svona í vinnunni“
👉 „Ég vil finna fyrir tilgangi, en veit ekki hvernig eða hver hann er“
Það getur verið löngun eftir aukinni ábyrgð, meira sjálfræði, heilbrigðara vinnuumhverfi, tilgangi eða einfaldlega tilfinningin um að vera föst í einhverjum aðstæðum sem okkur líður ekki vel í.
En undir niðri er það gjarnan leit að tengingu við okkar eigin gildi, drauma og tilgang sem knýr okkur áfram.
Það er ekki alltaf nýtt starf sem vantar, stundum vantar stefnu, framtíðarsýn og aðgerðir í átt að þeim.
Markþjálfun snýst ekki bara um að búa til áætlun, hún snýst um að komast í snertingu við það sem skiptir máli innra með okkur. Hún er leið til að læra að skilja sjálfa sig betur, endurskoða eigin forgangsröðun, viðhorf, hugsanir og tilfinningar og komast að kjarnanum áður en næsta ákvörðun er tekin.
Ef þú ert stödd á tímamótum þar sem þú ert að huga að breytingum, að velta fyrir þér hvort „þetta“ sé allt það sem vinnan hefur upp á að bjóða, þá ertu ekki ein og það er ekki merki um veikleika að vilja og þurfa stuðning í þessu ferli.
Það er hugrekki að segja: „Ég vil ekki bara berast sofandi að feigðarósi, ég vil vita hvert ég er að stefna og hvers vegna.“
💬 Hefur þú upplifað það að starfsleit hafi í raun verið leit að einhverju dýpra?
--
Hæ, ég heiti Lella og er markþjálfi og ráðgjafi sem hjálpar fólki á starfstengdum tímamótum að treysta á eigin styrk, láta til sín taka og blómstra í starfi. Ég brenn fyrir bættri vinnustaðamenningu og hef ástríðu fyrir því að hjálpa fólki að losa sig við loddaralíðan. Ég er alltaf til í spjall!